LFA

LFA

Samþykktir LFA


Samþykktir


1. gr.
Félagið heitir Lyftingafélag Austurlands og er skammstöfun þess L.F.A.


2. gr.
Markmið félagsins er að stuðla að iðkun í lyftingum,  almennri líkamsrækt og heilsu félagsmanna.
Félagsmenn keppa eftir gildandi reglum viðkomandi sérsambands og Íþrótta- og Ólympíusambands
Íslands – ÍSÍ hverju sinni. Lyftingafélag Austurlands er félag einstaklinga gegn greiðslu félagsgjalda
sem ákveðin eru árlega á aðalfundi, sbr. 6. gr.


3. gr.
Starf LFA er í meginatriðum að vinna að eflingu kraft- og ólympískum lyftinga á Austurlandi.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að afla fjárhaglegs stuðnings með styrkjum sem og
félagsgjöldum frá félagsmönnum. Enginn fjárhagslegur ávinningur verður til félagsmanna, svo sem
í formi launa, þar sem enginn eiginlegur rekstur verður annar en að afla fjár til að stuðla að
markmiðum félagsins um tilvist æfingaraðstöðu fyrir félagsmenn.


4. gr.
Hver sem er getur sótt um félagsaðild að Lyftingafélagi Austurlands.
Forráðamenn ólögráða barna þurfa þó að óska eftir aðild fyrir hönd barna sinna.
Félagsmenn vinna sameiginlega að markmiðum félagsins með sjálfboðavinnu eða fjáröflun að
einhverju tagi, svo sem greiðslu félagsgjalda.


5. gr.
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs.  
Aðeins félagsmenn sem hafa verið í félaginu 30 daga fyrir aðalfund mega vera þátttakendur í aðalfundi.


6. gr.
Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. ágúst ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna
fyrirvara með sannanlegum hætti. Til aðalfundar verður boðað í gegnum tölvupóstfang félagsmanna.
Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum
mála.  Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1.      Kosning fundarstjóra og fundarritara
2.      Skýrsla stjórnar lögð fram
3.      Reikningar lagðir fram til samþykktar
4.      Lagabreytingar
5.      Ákvörðun félagsgjalds
6.      Kosning skoðunarmanna.
7.      Kosning stjórnar
8.      Önnur mál


7. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð 5 félagsmönnum, formanni og 4 meðstjórnendum,  kjörnum á aðalfundi
til eins árs í senn með leynilegum kosningum. Einnig er heimilt að kjósa allt að 2 varamenn.
Formaður er kosinn fyrst og síðan meðstjórnendur og síðast varastjórn. Meðstjórnendur skipta með sér
verkum á fyrsta stjórnarfundi.  Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður
boðar til funda. Firmaritun er í höndum stjórnar. Stjórninni er þó heimilt að ráða til sín launað og
ólaunað starfsfólk.


8. gr.
Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi.  Félagsgjöld skulu innheimt á ársgrundvelli.


9. gr.
Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið í uppbyggingu félagsins, svo sem með
kaupum á líkamsræktarbúnaði og ef þarf, leigu á húsnæði fyrir aðstöðu félagsins til æfinga.
Einnig er hægt að koma á framfæri á aðalfundi félagsins hvernig best er að mæta rekstrarafgangi
félagsins.


10. gr.
Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða. Formaður
ráðstafar æfingabúnaði með sölu hans.  Allur ágóði við sölu rekstrarbúnaðar félagsins mun renna til
góðgerðasamtaka að vali meirihluta félagsmanna sem ákveðið er á aðalfundi fyrir slit félagsins.


11. gr.
Um þau atriði sem lög þessi tilgreina ekki, gilda ákvæði laga ÍSÍ og UMFÍ.


Samþykktir samþykktar á aðalfundi félagsins 5. febrúar 2019.